Innlent

Fundu óvænt 75 gráða heitt vatn í Áshildarmýri

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sumarbústaðaeigendur í Áshildarmýri á Skeiðum duttu heldur betur í lukkupottinn þegar þeir létu bora eftir heitu vatn því þar fannst 75 gráðu heitt vatn mjög óvænt. Ástæðan er sú að svæðið hefur verið skilgreint sem kalt svæði.

Bormenn frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða fundu heita vatnið með því að bora á réttum stað og finna réttu heitavatnssprunguna í landi Áshildarmýrar í Skeiða og Gnúpverjahreppi.

„Vatnið er að koma inn eftir 500 metra og þetta er bara yndislegt. Að vera að vinna fyrir þetta fólk hérna er bara frábært, þannig að þetta hefur lukkast vel,“ segir Steinar Már Þórisson, borstjóri við Áshildarmýri.

En hefur fundist heitt vatn áður á svæðinu?

„Nei, hér hefur ekki verið heitt vatn áður. Það er önnu rhola hérna aðeins ofar í sveitinni og hún gaf ekkert en er borið niður í 1000, 1100 metra,“ segir Steinar Már og lætur afar vel af verkefninu.

Komin með nóg vatn til að hita sýsluna

Hynur Árnason og Sigríður Jóna Friðriksdóttir eiga 100 hektara land í Áshildarmýri þar sem þau eru með sumarbústað og selja sumarbústaðalóðir. Þau létu bora eftir vatninu.

„Við fórum niður í 705 metra og fengum þá á milli 75 og 80 gráðu heitt vatn, sem er sjálfrennandi upp á 1,6 sekúndulítra,“ segir Hlynur Árnason, eigandi Áshildarmýrar.

Rúnar Lárusson, sumarbústaðaeigandi í Áshildarmýri, segir heitavatnsfundinn gleðilegan fyrir sumarbústaðaeigendur á svæðinu.

„Undanfarin ár höfum við kynt húsin okkar með rafmagni. Þetta er ástæðan fyrir því að við fórum að bora, að losna við þessa dýru kyndingu. Nú erum við komin með nóg vatn til að hita sýsluna liggur við, þetta er náttúrulega bara happdrætti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×