Skoðun

Unga fólkinu fórnað

Ævar Rafn Hafþórsson skrifar
Þegar hrunið skall á 2008 fraus byggingariðnaðurinn. Undirritaður var þá að vinna við nýbyggingar þegar allt í einu kom bara eitt stórt STOPP. Þetta var ekki fyrsti veturinn sem undirritaður gekk í gegnum verkefnaskort vegna samdráttar í hagkerfinu. En í þetta skipti var Bleik verulega brugðið. Allt virtist vonlaust og Geir bað sjálfan Guð að blessa Ísland. Undirritaður skellti sér því í háskólanám og kláraði grunn- og meistaranám í hagfræði. Besta ákvörðun sem ég hef tekið.

Ég var alltaf með byggingariðnaðinn á heilanum sem endaði með því að ég skrifaði meistararitgerð um byggingariðnaðinn. Ritgerðin ber heitið „Framleiðni á byggingamarkaði – samanborið við Noreg“. Þar kom í ljós að Norðmenn eru með um 50% meiri framleiðni á byggingamarkaði en við. Þá fór ég að hugsa um þau ár þar sem byggingamarkaðurinn var í algjöru frosti á meðan mannfjölgun hélt áfram mjög línulega. Skorturinn á íbúðamarkaði er mjög mikill vegna þess að ekki var byggt neitt að ráði frá 2008-2010 ásamt því að framleiðnin er ekki nógu góð. Þegar ég segi að Norðmenn séu með 50% meiri framleiðni á vinnustund þá þýðir það að á meðan við framleiðum 1.000 íbúðir þá framleiða þeir um 1.500 fyrir sömu vinnustundir. Til gamans má geta að þá er árleg þörf nýbyggðra íbúða á höfuðborgarsvæðinu um 1.800-2.000 íbúðir. Þannig að það munar um minna. Ég ætla ekki að fara yfir ástæður þess af hverju þetta er svona enda er hægt að lesa það í ritgerðinni minni. Það sem ég hef hins vegar áhuga á að tala um eru ruðningsáhrif af hótelbyggingum á nýbyggingar á íbúðamarkaði.

Framleiðslugeta á byggingamarkaði takmarkast við það vinnuafl sem er til staðar (einnig framboð af fjármagni). Þar sem þörfin er orðin mjög brýn á nýju húsnæði þurfum við að flytja inn framleiðsluþætti í formi vinnuafls. Þetta vinnuafl kemur aðallega frá Austur-Evrópu. Án þess værum við í djúpum skít eins og sagt er. En málið er að mikið af þessu vinnuafli fer í það að byggja hótel vegna fjölgunar á ferðamönnum. Þetta hefur ruðningsáhrif á nýbyggingar á íbúðamarkaði og viðheldur þessum skorti sem einkennt hefur markaðinn síðastliðin ár. Íbúðaverð mun halda áfram að hækka sem gerir ungu fólki nánast ómögulegt að kaupa. Þetta hefur einnig áhrif á leigumarkaðinn. Grunnþarfir mannsins eru húsaskjól og matur samkvæmt Maslow-píramídanum. Þannig að spurningin er, hvað gerir unga fólkið? Fer það úr landi eða hefur það þolinmæði til að vera áfram í foreldrahúsum? Ferðamannabomban var það versta sem gat komið fyrir unga fólkið á fasteignamarkaði akkúrat á þessum tímapunkti. Fjölgun ferðamanna er jákvæð fyrir hagkerfið en tímasetningin er afleit.

Í lokin ætla ég að fara yfir smá hagfræðiraus um aðstæður eins og þær blasa við okkur í dag. Við höfum áður séð í hagsögu Íslands dæmi um offjárfestingar í atvinnugreinum. Á síldar­árunum var gríðarleg offjárfesting í hagkerfinu sem leiddi til þess að framleiðni fjármagns var afleit. Ég er ekki að fullyrða að offjárfesting sé hafin í íslenska hagkerfinu en sporin hræða. Hraður vöxtur getur villt mönnum sýn og menn verða ofurbjartsýnir á framtíðina. Í rekstrarhagfræðilegum skilningi þýðir offjárfesting í einhverri atvinnugrein að framleiðni fjármagns verður lítil eins og áður sagði. Það þýðir að sá sparnaður sem hagkerfið hefur lagt til hliðar nýtist illa. Sparnaðurinn hverfur í eitthvað sem skilar litlu og eftir situr hagkerfið með minna fé til fjárfestinga. Það er þekkt að fátækar þjóðir búa við fjármagnsskort sem lýsir sér í mikilli jaðarframlegð fjármagns og háum raunvöxtum því samkvæmt hagfræðinni er jaðarframlegð fjármagns = raunvextir (MPL = r). Höfum þetta aðeins á bak við eyrað því þó að raunvextir hafi farið verulega lækkandi í gegnum árin þá er þetta þáttur sem hefur áhrif.

Í lokin er undirritaður sannfærður um að Liverpool verði meistarar í vor. Góðar stundir!




Skoðun

Sjá meira


×