Í tilkynningu frá lögreglu segir einnig að ekki hafi verið reiknað með að vinna rýmingar- og viðbragðsáætlanir á svæðinu fyrr en seint á næsta ári. Vegna aukinnar virkni við Öræfajökul hefur þessari vinnu nú verið flýtt en lögregla birti meginatriði rýmingaráætlunar á Facebook-síðu sinni í dag.
„Við gerð rýmingaráætlana er horft til tveggja verkþátta, annars vegar áætlunar um neyðarrýmingu þar sem eldgos hefjist nánast fyrirvaralaust og engin tími gefist til undirbúnings og hinsvegar rýmingaráætlunar í fjórum þáttum þar sem hægt væri að vinna skipulega að rýmingu.“
Slík áætlun væri í meginatriðum í fjórum fösum, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi:
Stig a:
• Slóðum og vegum frá þjóðvegi 1 lokað
• Ytri lokanir settar upp
• Lokað inn á svæðið frá Lómagnúp í vestri og Jökulsárlóni í austri
• Eingöngu íbúum, vísindamönnum, viðbragðsaðilum, flutningabílum og annarri nauðsynlegri umferð hleypt inn fyrir
• Flutningur á búfé undirbúinn
Stig b:
• Allir ferðamenn og aðrir sem ekki þurfa nauðsynlega að vera á svæðinu látnir yfirgefa það
• Búfé flutt á brott
• Lokað fyrir alla umferð inná svæðið aðra en viðbragðsaðila og vísindamanna
Stig c:
• Allsherjarrýming svæðisins
Stig d:
• Lokanir færðar vestar og austar með tilliti til spár um öskufall
• Rýmingarsvæði endurmetið með tilliti til spár um öskufall
Lykilaðilar við gerð og útfærslu rýmingaráætlana eru íbúar og aðrir hagsmunaaðilar á rýmingarsvæðinu og í næsta nágrenni, að því er fram kemur í tilkynningu.
Óvissustig almannavarna vegna Öræfajökuls verður áfram í gildi og litakóði vegna flugs í grennd við jökulinn verður áfram gulur á meðan óvissa er um framhald atburðarásar sem nú er í jöklinum. Þrír jarðskjalftar urðu við Hvannadalshnjúk í gærkvöldi og í nótt og segir jarðskjálftafræðingur allar hreyfingar varhugaverðar.