Innlent

Telur brýnt að endurskoða kerfið í þeim málum er annað foreldri tálmar umengni barns við hitt

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Dómsmálaráðherra telur brýnt að skoða það kerfi sem börn og foreldrar búa við í þeim málum er annað foreldrið hefur meinað hinu að umgangast barn sitt.  Nú þegar er vinna hafin í ráðuneytinu. Hún hafi kallað eftir gögnum frá öllum sýslumannsembættum á landinu.

Dæmi eru um að það hafi tekið kerfið allt að fjögur ár að leiða til lykta mál þar sem annað foreldrið hefur meinað hinu að umgangast barn sitt.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði sérfræðingur í barnarétti að stytta þyrfti málsmeðferðartímann. Þá vakti saga Ólafs Hand, föður ellefu ára stúlku, athygli á dögunum en að hans sögn hefur móðir stúlkunnar tálmað umgengni hans við dóttur hans um tíma.

„Ég get tekið undir þá gagnrýni að málsmeðferðartíminn sé langur og þess utan þá bregður líka við að mál eru jafnvel endurupptekin, þar að segja það stofnast alltaf ný og ný mál sem er eitt og sama málið. Þessi mál eru vandmeðfarin og ég þekki það alveg að það er einhverstaðar flöskuháls í kerfinu og ég tel brýnt að skoða það,“ segir Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra og bætir við að nú þegar sé hafin vinna í ráðuneytinu til að koma málunum í réttan farveg.

„Ég hef núna til dæmis kallað eftir upplýsingum frá öllum sýslumönnum á landinu um stöðu þessara mála,“ segir Sigríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×