Erlent

Fjór­tán ára ráðinn til að hefna fyrir morðið á fimm­tán ára

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fátækt er útbreidd í Marseille.
Fátækt er útbreidd í Marseille. Getty

Yfirvöld í Marseille á Frakklandi segja átök glæpahópa um fíkniefnamarkaðinn í borginni vera að ná til afar ungra einstaklinga, sem séu ráðnir af hópunum til að fremja ofbeldisbrot.

Nýjasta málið kom upp fyrir helgi en þá var 14 ára drengur ráðinn af fanga til að hefna fyrir morðið á 15 ára pilti sem sami fangi hafði ráðið til að kveikja í útidyrahurð keppninautar.

Fanginn setti sig í samband við fimmtán ára drenginn í gegnum netið í síðustu viku og sagðist myndu greiða honum 2.000 evrur fyrir að skjót á og kveikja í dyrum andstæðings síns. Það komst hins vegar upp um táninginn við verknaðinn, sem var stunginn 50 sinnum og kveikt í honum.

Nokkrum dögum síðar hafði fanginn samband við fjórtán ára piltinn í gegnum samfélagsmiðla og hét honum 50.000 evrum fyrir að hefna morðsins. Pilturinn tók leigubíl á vettvang en þegar bílstjórinn neitaði að bíða eftir honum, skaut pilturinn hann í höfuðið og flúði.

Myrti var 36 ára áhugamaður í knattspyrnu sem var þekktur í Marseille og fannst í leigubifreiðinni skammt frá aðallestarstöð borgarinnar. Hann er ekki talinn hafa haft nein tengsl við undirheima.

Það var fanginn sem hafði samband við lögreglu og vísaði þeim á piltinn og virðist í leiðinni hafa bendlað sjálfan sig við verknaðinn. Lögregla rannsakar nú hvað honum gekk til með því.

Marseille er næst stærsta borg Frakklands og sú borg landsins þar sem fátækt er einna útbreiddust. Átök um fíkniefnamarkaðinn í borginni hafa verið fyrirferðamikil síðustu ár en Emmanuel Macron Frakklandsforseti hét því fyrr á þessu ári að grípa til aðgerða.

Sautján hafa látist í átökum tengdum fíkniefnamarkaðnum í borginni á þessu ári og yfirvöld segja bæði fórnarlömbin og gerendur sífellt verða yngri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×