Innlent

Karlmaður kærður fyrir að ógna piltum með hnífi í Árbæ

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn veittist að piltunum eftir að púðurkerlingu var kastað á eftir bíl hans.
Maðurinn veittist að piltunum eftir að púðurkerlingu var kastað á eftir bíl hans. Vísir
Karlmaður á fertugsaldri hefur verið kærður til lögreglu fyrir að ógna unglingspiltum við Fylkisheimilið í Árbæ um hálf átta leytið í gærkvöldi. Greint var fyrst frá málinu á DV en maðurinn var handtekinn á heimili sínu í gær og færður til yfirheyrslu á lögreglustöð þar sem hann gisti í nótt.

Í frétt DV kemur fram að piltarnir hafi verið fjórir og allir fjórtán ára. Einn þeirra á að hafa hent kínverja, eða púðurkerlingu, á eftir bíl mannsins. Maðurinn á að hafa stöðvað bílinn í kjölfarið og veist að piltunum, meðal annars með því að henda einum þeirra í jörðina og taka annan hálstaki og hóta með hnífi.

Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir forráðamenn piltanna hafa lagt fram kæru gegn manninum vegna málsins sem er nú komið til ákærusviðs lögreglunnar þar sem ákveðið verður hvort maðurinn verður ákærður eða ekki.

Valgarður segir piltana hafa kennt sér meins eftir þetta atvik og hafi leitað á slysadeild Landspítalans.

Maðurinn gaf sínar skýringar í yfirheyrslu við lögreglu en að sögn Valgarðs sagðist hann hafa verið með vinnuhníf á sér en ekki beitt honum. Maðurinn sagði hins vegar að piltarnir hefðu verið með hníf á sér og ásakanirnar þannig gengið á víxl segir Valgarður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×