Sport

NFL: Osweiler svaraði gagnrýnendum sínum | Seattle örugglega áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brock Osweiler fagnar en hann leiddi Houston Texans til sigurs.
Brock Osweiler fagnar en hann leiddi Houston Texans til sigurs. Vísir/Getty
Houston Texans og Seattle Seahawks unnu bæði góða heimasigra í nótt þegar úrslitakeppni NFL-deildarinnar hófst með tveimur „Wild card“ leikjunum

Houston Texans vann þá 27-14 sigur á Oakland Raiders og Seattle Seahawks vann Detroit Lions 26-6.

Brock Osweiler, leikstjórnandi Houston Texans, hefur fengið mikla gagnrýni á tímabilinu eftir að hafa ekki náð að standa undir þeim risasamning sem hann fékk í sumar.

Osweiler var meðal annars settur á bekkinn á dögunum en kom aftur inn fyrir þennan leik af því að varamaðurinn hans mátti ekki spila eftir að hafa fengið höfuðhögg.

Osweiler svaraði gagnrýnendum sínum með fínum leik í nótt þegar hann leiddi Houston Texans til sigurs. Í mikilvægri í sókn í fyrri hálfleik sýndi hann meira að segja frábær tilþrif.

Osweiler skoraði snertimark sjálfur auk þess að gefa snertimarkssendingu. Hvort að hann geti spilað svona vel um næstu helgi á eftir að koma í ljós.

Oakland Raiders missti tvo leikstjórnendur í meiðsli á síðustu tveimur vikum og þurfti því að tefla fram nýliðanum Connor Cook í þessari mikilvægu stöðu í nótt.

Connor Cook varð þá fyrsti leikstjórnandinn sem byrjar sinn fyrsta leik í úrslitakeppni og að auki var hann að mæta bestu vörninni í NFL-deildinni. Það kom því ekkert á óvart að tímabil Oakland Raiders hafi endað í nótt.

Það kemur ekki í ljós fyrr en í dag hver verður mótherji Houston Texans í undanúrslitum Ameríkudeildarinnar um næstu helgi.

Seattle Seahawks liðið er því komið í undanúrslitin fimmta árið í röð og í sjötta sinn á síðustu sjö árum.

Detroit Lions liðið hefur aftur á móti tapað níu leikjum í röð í úrslitakeppninni sem er met en liðið hefur ekki unnið leik í úrslitakeppni síðan árið 1991. Löng bið lengdist því enn frekar í nótt.

Seattle Seahawks komst yfir í leiknum eftir ótrúleg tilþrif útherjans Paul Richardson sem greip þá boltann í vonlítilli stöðu í endamarkinu. Það var annars hlauparinn Thomas Rawls sem var besti maður Seattle-liðsins en hann setti nýtt félagsmet með því að hlaupa 161 jarda.

 

Detroit Lions átti magnað tímabil en lenti í miklum vandræðum í lok tímabilsins þegar leikstjórnandinn meiddist á fingri. Hann spilaði í gegnum meiðslin en var ekki sami leikmaður. Detroit endaði tímabilið því á fjórum tapleikjum í röð.

Seattle Seahawks mætir Atlanta Falcons í undanúrslitum Þjóðardeildarinnar um næstu helgi en sá leikur fer fram á heimavelli Atlanta-liðsins.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×