Hann segir þar um nálega 100 manna samfélag að ræða, umvafið gróðri. „Það minnir mig svolítið á þættina um sjúkrahúsið í Svartaskógi sem voru í sjónvarpinu á árum áður,“ segir hann glaðlega.
Brynjar Karl er grunnskólakennari sem eftir fimmtán ár í því starfi tók sér launalaust leyfi í vetur til að skrifa. Þessi nýútkomna bók hans er hliðarafurð af öðru stærra verkefni sem hann hefur unnið að í hálfan annan áratug, það er saga berklasjúklinganna á Kristneshæli. Stefnan er að gefa hana út í haust. „Það verður dramatík,“ lofar hann.
Þegar ég næ í Brynjar Karl er hann nýkominn frá Húsavík „á bókabílnum“, eins og hann kallar heimilisbílinn núna. „Ég var dálítið seinn með útgáfuna fyrir jólin, þannig að mín vertíð hefur verið milli hátíðanna og nú í byrjun árs,“ segir hann. „Ég stend í þessu einn, skrifa bókina, gef hana út og sé um söluna,“ bætir hann við og tekur því vel þegar honum er líkt við litlu gulu hænuna.

Útgáfufyrirtæki Brynjars Karls, Grenndargralið er sprotafyrirtæki. Undirtitill þess er Gersemar úr sögu og menningu heimabyggðar. Það byrjaði sem skólaþróunarverkefni. „Allt sem ég geri, hvort sem það er í tengslum við skólamál eða bókaútgáfu, tengist sögu og menningu Eyjafjarðar,“ segir hann. „Markmiðið er að koma á framfæri við almenning öllu því skemmtilega sem saga byggðarinnar okkar býr yfir.“
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. janúar 2017