Innlent

Hægðist á söfnun fyrir Færeyinga eftir tilkynningu frá Lilju

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Addy Steinars, Gísli Gíslason, Orri Vigfússon og Rakel Sigurgeirsdóttir fara fyrir söfnuninni. Rakel bendir á frétt þar sem utanríkisráðherra Færeyja segist taka glaður á móti aðstoð frá Íslandi.
Addy Steinars, Gísli Gíslason, Orri Vigfússon og Rakel Sigurgeirsdóttir fara fyrir söfnuninni. Rakel bendir á frétt þar sem utanríkisráðherra Færeyja segist taka glaður á móti aðstoð frá Íslandi.
Tæplega fjórar milljónir króna hafa safnast til handa Færeyingum vegna óveðursins sem gekk yfir eyjarnar um jólin, með þeim afleiðingum að gríðarlegt tjón varð. Færeysk stjórnvöld hafa afþakkað fjárhagsaðstoð frá íslenskum stjórnvöldum þar sem tjónið var að mestu leyti tryggt, en ætla að þiggja aðstoð frá íslenskum almenningi.  

Rakel Sigurgeirsdóttir, annar aðstandenda söfnunarinnar, segir að tekin verði ákvörðun á morgun í samráði við sendiherra Færeyinga á Íslandi um hvort féð renni til björgunarsveita og/eða þeirra sem ekki voru tryggðir fyrir tjóninu.

„Björgunarsveitirnar urðu fyrir miklu tjóni, en þær eru illa tryggðar í Færeyjum. Búnaður þeirra skemmdist að stórum hluta þannig að með þessu getum við svo sannarlega lagt þeim lið, en björgunarsveitir í Færeyjum eru ekki vel búnar þannig að það er líka hægt að bæta búnað þeirra. Það er viðbúið að svona veður muni skella á aftur í framtíðinni vegna loftslagsbreytinga þannig að Færeyingar þurfa að búa sig undir það,“ segir Rakel í samtali við Vísi .

Rakel segir söfnunina hafa gengið mjög vel framan af. Hins vegar hafi það sett strik í reikninginn þegar Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra greindi frá því að færeysk stjórnvöld þyrftu ekki á aðstoð að halda vegna stormsins, því sendiherra Færeyja hafi lýst því yfir að hann muni glaður taka á móti stuðningi frá íslenskum almenningi.

„Það hægðist á söfnuninni eftir þessa tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Poul Michelsen [utanríkisráðherra Færeyja] afþakkaði vissulega stuðning frá stjórnvöldum, en ekki íslenskum almenningi, eins og kemur fram í færeyskum fréttum. Það er margt sem við getum gert við þetta fé, eins og til dæmis aðstoða björgunarsveitirnar og þá sem eru illa eða ekki tryggðir og urðu fyrir tjóni,“ segir hún.

Söfnuninni verður framhaldið í um það bil tvær vikur til viðbótar og aðspurð segir Rakel Færeyinga afar þakkláta. „Þeir hafa verið að senda inn þakkarkveðjur á spjallþráðum á netinu og eru í heildina mjög þakklátir.“

Hér fyrir neðan má finna styrktarreikninginn, og þá er hægt að fylgjast með söfnuninni í gegnum Facebook-síðuna Færeyingar og Íslendingar eru frændur.

 

1161 26 006000

170961-7819

Tilkynningin frá Lilju Alfreðsdóttur.

Tengdar fréttir

Vilja launa Færeyingum stuðninginn

Rakel Sigurgeirsdóttir og Addý Steinarrs hvetja Íslendinga til þess að styðja frændþjóð okkar vegna óveðursins sem gekk yfir á jóladag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×