Enski boltinn

James útilokar sjálfur að fara til United í janúar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
James Rodríguez verður áfram á Bernabéu.
James Rodríguez verður áfram á Bernabéu. vísir/getty
Kólumbíski landsliðsmaðurinn James Rodríguez fer ekki til Manchester United í janúar eins og skrifað hefur verið um. Þessi öflugi miðjumaður hefur verið sterklega orðaður við United undanfarnar vikur og mánuði.

José Mourinho ætlar að styrkja sveit sína í janúar fyrir átökin á seinni hluta leiktíðar en liðið er enn í baráttu um Meistaradeildarsæti auk þess sem það á fyrir höndum leiki í undanúrslitum deildabikarsins, útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar og þá fer enski bikarinn af stað um helgina.

James vill alls ekki yfirgefa Bernabéu þrátt fyrir að vera ekki fastamaður í liði Zinedine Zidane en Kólumbíumaðurinn er aðeins búinn að byrja tvo af síðustu tíu deildarleikjum spænska stórliðsins.

Miðjumaðurinn var spurður út í orðrómana eftir 3-0 bikarsigur Real Madrid gegn Sevilla í gærkvöldi og þar útilokaði James að yfirgefa spænsku höfuðborgina.

„Real Madrid er félagið sem mig dreymdi um að spila fyrir og hér er ég að upplifa drauminn. Ég er þar sem ég vildi alltaf komast. Að heyra fólkið á Bernabéu syngja nafn mitt er draumi líkast,“ segir James Rodríguez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×