Erlent

Ísraelskur hermaður sekur um manndráp

Samúel Karl Ólason skrifar
Elor Azaria með fjölskyldu sinni í dómsal í dag, áður en hann var dæmdur.
Elor Azaria með fjölskyldu sinni í dómsal í dag, áður en hann var dæmdur. Vísir/AFP
Ísraelskur hermaður hefur verið fundinn sekur um manndráp (e. manslaughter) fyrir að skjóta særðan mann í höfuðið. Herdómstóll sakfelldi hinn 20 ára gamla Elor Azaria í dag, en hann skaut palestínskan mann sem hafði reynt að stinga ísraelskan hermann.

Palestínumaðurinn, Abdel Fattah al-Sharif, hafði reynt að stinga annan ísraelskan hermann í borginni Hebron og var særður. Fimmtán mínútum síðar, þar sem Sharif lá á jörðinni skaut Azaria hann í höfuðið.

Einn dómaranna þriggja sagði ljóst að útskýring Azaria að ógn hefði enn stafað af Sharif og að hann væri mögulega með sprengjubelti, héldi ekki vatni. Azaria hafði einnig haldið því fram að Sharif hefði þegar verið látinn þegar hann skaut hann.

Dómarinn sagði að Azaria hefði ekki skotið manninn í sjálfsvörn og benti á vitnisburði yfirmanns Azaria og sjúkraflutningamanns. Þeir sögðu Azaria hafa sagt að Sharif ætti „skilið að deyja“ skömmu áður.

Dómararnir höfnuðu einnig þeim málflutningi verjenda Azaria að Sharif hefði verið að teygja sig í hnífinn sem hann hafði verið með, þar sem mynbönd af vettvangi sýndu að hnífurinn hafði verið færður þangað sem Sharif næði ekki til hans.

Dómarinn, sem heitir Maya Heller, sagði þá staðreynd að maðurinn á jörðinni hafi verið hryðjuverkamaður og að hann hafi reynt að taka líf ísraelskra hermanna, ekki réttlæta aðgerðir Azaria.

Refsing Azaria hefur ekki verið ákveðin.

Ráðherra er ósammála

Hundruð mótmælenda mótmæltu fyrir utan herstöðina í Tel Aviv, þar sem réttarhöldin fóru fram. Réttarhöldin hafa valdið miklum deilum í Ísrael en fjölmargir telja þau óréttlát.

Varnarmálaráðherra Ísrael segir niðurstöðuna vera „erfiða“ og að hann sé ósammála úrskurðinum. Avigdor Lieberman kallaði þó eftir því að niðurstaðan yrði virt.

Myndbandið hér að neðan gæti vakið óhug lesenda, en það sýnir skotárásina. Myndbandið er frá In the Now, undirmiðli RT fréttastofunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×