Erlent

Lögregluþjónn skellti stúlku í gólfið

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndbandið var tekið upp í skóla í Rolesville, en sýnir þó ekki aðdraganda atviksins.
Myndbandið var tekið upp í skóla í Rolesville, en sýnir þó ekki aðdraganda atviksins.
Lögregluþjónn í Norður Karólínu í Bandaríkjunum hefur verið settur í leyfi eftir að myndband af honum að skella stúlku í gólfið fór á netið. Á myndbandinu má sjá hann lyfta stúlkunni upp aftan frá og henda henni í jörðina áður en hann dregur hana af vettvangi.

Myndbandið var tekið upp í skóla í Rolesville, en sýnir þó ekki aðdraganda atviksins. Skólayfirvöld á svæðionu hafa sagt að lögregluþjónninn hafi verið að stöðva slagsmál á milli tveggja stúlkna og að sú sem endar í gólfinu hafi reynt að hafa afskipti af störfum lögregluþjónsins.

Myndbandið hefur valdið mikilli reiði á samfélagsmiðlum en undanfarna mánuði og ár hafa ítrekað komið upp atvik sem vekja spurningar um valdbeitingu lögreglu gegn þeldökku fólki í Bandaríkjunum.

Sjálf segir stúlkan, sem heitir Jasmine Darwin, að hún hafi verið að reyna að stöðva slagsmál á milli systur sinnar og annarrar stúlku þegar lögregluþjónninn kom aftan að henni og skellti henni í gólfið.

Móðir Jasmine fór með hana á sjúkrahús þar sem í ljós kom að hún hefði hlotið heilahristing við skellinn.

„Svona á ekki að meðhöndla barn,“ sagði móðirinn við WRAL. „Hún er einungis 45 kíló. Hann hefði getað drepið hana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×