Erlent

Mein Kampf óvænt metsölubók í Þýskalandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Upprunalega stóð til að selja einungis fjögur þúsund eintök.
Upprunalega stóð til að selja einungis fjögur þúsund eintök. Vísir/AFP
Endurútgáfa Mein Kampf, bókar Adolf Hitler, selst eins og heitar lummur í Þýskalandi um þessar mundir. Þetta er í fyrsta sinn sem bókin er prentuð út frá seinni heimstyrjöldinni og stóð upprunalega til að selja einungis fjögur þúsund eintök. Hins vegar er búið að selja um 85 þúsund bækur á einu ári og stendur til að prenta enn fleiri bækur.

Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar hefur Mein Kampf verið á toppsölulista Der Spiegel mest allt árið 2016 og trónaði einnig á toppi listans um tveggja vikna skeið í apríl.

Útgefendur bókarinnar, Stofnun nútímasögu sem staðsett er í München, segja útgáfu Mein kampf ekki ýta undir áróður öfgahægri afla. Þess í stað hefði bókinn betrumbætt umræðu landsins um endurupprisu öfga í vestrænum samfélögum.

„Svo virðist sem að óttinn við að útgáfa bókarinnar myndi ýta undir útbreiðslu hugmyndafræði Hitler, auka viðurkenningu hennar í samfélaginu eða ýta undir áróður nýnastia hafi ekki verið á rökum reistur,“ segir Andreas Wirsching, yfirmaður stofnunarinnar.

Stofnunin ætlar þó að halda áfram að takmarka útgáfu bókarinnar á heimsvísu. Nú stendur til að gefa hana út á ensku og frönsku, en áhuginn er mikill á heimsvísu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×