Innlent

Nýársátakið hafið: Sjö þúsund mættu í World Class í gær en toppnum ekki náð

Birgir Olgeirsson skrifar
Björn Leifsson, eigandi World Class.
Björn Leifsson, eigandi World Class. Vísir/GVA
Sjö þúsund manns mættu í líkamsræktarstöðvar World Class í gær, á fyrsta virka degi ársins. Ætla má að margir hafi strengt sér áramótaheit um að komast í betra form á nýju ári og mátti sjá fjölda fólks í líkamsræktarstöðvum í gær.

Björn Leifsson, eigandi World Class, segir í samtali við Vísi að gærdagurinn sé ekki toppurinn á árinu í World Class þegar kemur að mætingu. Toppurinn nær allajafna hámarki seinni partinn í mars.

„Þetta virkar alltaf meira í byrjun janúar því þá er fólk mikið að koma á sama tíma,“ segir Björn.

30% fleiri í World Class

Handhafar líkamsræktarkorta í World Class eru um 30 prósent fleiri í dag en fyrir ári. Það eru því um 7.000 fleiri handhafar líkamsræktarkorta í World Class í dag en voru fyrir ári, en þar af eru 2.500 á Selfossi.

Á fyrsta virka degi ársins bættust 538 nýir korthafar við hópinn en Björn segir að það sé algengt að þau hjá World Class selji um tvö til þrjú hundruð kort á dag fyrstu vikurnar á árinu.

„Þetta er orðinn það stór kúnnahópur. Við erum með 30 þúsund virk kort og því er það kannski ekkert rosalega mikið að fá á þrjú hundruð kort á dag því svo dettur annað út á móti,“ segir Björn.

Mikil aukning hjá eldra fólki

Hann segist verða var við mikinn líkamsræktaráhuga í samfélaginu. „Við erum að sjá gríðarlega mikla aukningu hjá eldra fólki. Svo virðumst við vera að ná unga hópnum eins og hann leggur sig. Öll umræðan í þjóðfélaginu hefur verið í þessa átt,“ segir Björn.

Hann nefnir einnig að World Class hefur ekki hækkað gjöld í þrjú ár. „Þannig að þetta er orðið mjög ódýrt miðað við Norðurlöndin. Og ég tala nú ekki um miðað við það sem er boðið upp á, við erum með aðgang að sex sundlaugum án aukagjalds,“ segir Björn.

Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi Sporthússins.Vísir/Anton Brink
Stóra törnin fer í gang í næstu viku

Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi Sporthússins, segir nokkuð mikla umferð hafa verið í Sporthúsið í Kópavogi í gær en stóra törnin fari ekki gang fyrr en í næstu viku þegar öll námskeiðin byrja.

Hann segir það árlegan viðburð að handhöfum líkamsræktarkorta fjölgi í byrjun árs en þetta sé orðið mun jafnara yfir árið í dag þar sem fólk er með fasta samninga og borgar mánaðarlega af þeim.

Þröstur segist hafa verið níu ár í líkamsræktarbransanum og hefur á þeim árum stöðugt fundið fyrir meiri líkamsræktaráhuga á meðal Íslendinga. „Það stunda mun fleiri líkamsrækt í dag en gerðu fyrir tíu árum,“ segir Þröstur og nefnir að með tilkomu fleiri líkamsræktarstöðva hafi samkeppnin aukist gríðarlega.

Reynt var að nálgast samskonar upplýsingar hjá líkamsræktarstöðvunum Reebok Fitness og Hreyfingu en ekki höfðu borist svör þegar þetta er ritað. Ekki lágu fyrir upplýsingar hjá Mjölni þegar eftir því var leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×