Enski boltinn

Þurfum að fara til ársins 2013 til að finna samsvarandi daga hjá United og Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic fagnar marki sínu.
Zlatan Ibrahimovic fagnar marki sínu. Vísir/Getty
Manchester United er á mikilli siglingu í ensku úrvalsdeildinni þessa dagana og þrátt fyrir að liðið sé enn bara í sjötta sæti er nú farið að styttast í efstu liðin eftir sex sigurleiki í röð.

Bæði Manchester United og knattspyrnustjórinn Jose Mourinho hafa þurft að bíða í að vera fjögur ár eftir samsvarandi velgengni.

Manchester United hefur nú leikið þrettán leiki í röð í öllum keppnum án þess að tapa sem er lengsta taplausa hrina liðsins síðan í mars 2013 en þá var liðið undir stjórn Sir Alex Ferguson. Unted lék 18 leiki í röð án taps fyrir tæpum fjórum árum síðan.

Þetta er ennfremur lengsta sigurganga liðs undir stjórn Jose Mourinho síðan að Real Madrid vann sjö leiki undir hans stjórn í marsmánuði 2013. United hefur unnið sex deildarleiki í röð en sjö leiki í röð í öllum keppnum.

Opta tók þetta saman sem og þá staðreynd að Zlatan Ibrahimovic hefur nú skorað 18 mörk í öllum keppnum á tímabilinu eða meira en Anthony Martial á síðasta tímabili.

Anthony Martial var þá markahæstur í liði Manchester United með 17 mörk í öllum keppnum á öllu tímabilinu. Zlatan hefur ennþá fimm mánuði til að bæta við mörkum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×