Enski boltinn

Bayern München gefur Swansea leyfi til að tala við Clement

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti hefur unnið mikið með Paul Clement (til hægri).
Carlo Ancelotti hefur unnið mikið með Paul Clement (til hægri). Vísir/Getty
Það lítur allt út fyrir það að Gylfi Þór Sigurðsson og félagar séu að fá nýjan knattspyrnustjóra.

Paul Clement, aðstoðarmaður Carlo Ancelotti hjá þýska stórliðinu Bayern München, hefur fengið leyfi til að ræða við enska úrvalsdeildarliðið Swansea City.

Lið Gylfa Þórs Sigurðssonar er að leita sér að nýjum knattspyrnustjóra eftir að félagið lét Bob Bradley fara á milli jóla og nýárs.  Liðið er í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og nýr stjóri þarf því að hefja björgunaraðgerðirnar hið snarasta.

Swansea City ræddi við Paul Clement áður en félagið réði Bob Bradley í október en ákvað að bjóða Bandaríkjamanninum starfið.

Það gekk þó ekki vel og Bob Bradley var rekinn eftir aðeins 85 daga í starfi. Swansea vann aðeins 2 af 11 leikjum sínum undir hans stjórn og fékk á sig 29 mörk í þeim.

Velska félagið hefur þar með rekið tvo knattspyrnustjóra á þessu tímabili því Ítalinn Francesco Guidolin tók pokann sinn í byrjun október.

Paul Clement er 44 ára gamall Englendingur sem hefur unnið með Carlo Ancelotti hjá Chelsea, Paris Saint-Germain, Real Madrid og Bayern München.

Hann var einn og óstuddur hjá Derby County í ensku b-deildinni tímabilið 2015-16 en var rekinn í febrúar eftir 14 sigra, 12 jafntefli og 7 töp í 33 leikjum.

Nú fær Paul Clement tækifæri til að sýna sig og sanna í ensku úrvalsdeildinni því úr þessu kemur fátt í veg fyrir það að hann taki við liði Swansea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×