Innlent

Bílbruninn í Kópavogi: „Ekkert viss hvort manni hefði tekist að ná öllum börnunum út í tæka tíð“

Atli Ísleifsson skrifar
Guðbjörg Anna býr á Höfn í Hornafirði og var fjölskyldan í fríi á höfuðborgarsvæðinu yfir jólin.
Guðbjörg Anna býr á Höfn í Hornafirði og var fjölskyldan í fríi á höfuðborgarsvæðinu yfir jólin. Facebook/aron tómas
„Við erum rosalega fegin því að við vorum ekki lögð af stað heim. Maður er ekkert viss hvort manni hafi tekist að ná öllum börnunum út í tæka tíð,“ segir Guðbjörg Anna Bergsdóttir, eigandi bílsins sem varð alelda á hringtogi á mótum Arnarnesvegar og Reykjanesbrautar í Kópavogi síðastliðinn föstudag.

Guðbjörg Anna býr á Höfn í Hornafirði og var fjölskyldan í fríi á höfuðborgarsvæðinu yfir jólin. „Við fórum með bílinn okkar í viðgerð áður en við lögðum af stað heim. Bíllinn er þarna í einhvern smá tíma á verkstæðinu og svo fer bifvélavirkinn að prufukeyra hann. Skömmu síðar er okkur svo tilkynnt að kviknað hafi í bílnum.“

Verið var að skipta um háspennukefli, hjólalegu að framan og stýrisenda í bílnum. Allt er þetta framarlega í bílnum en svo virðist sem að eldurinn hafi komið upp aftarlega í bílnum, vinstra megin. Er því ljóst viðgerðin tengist á engan hátt því að eldurinn hafi komið upp. Bifvélavirkinn slapp óhultur.

Bíllinn sem um ræðir.Vísir/Lillý Valgerður
Guðbjörg Anna segist hafa verið í áfalli eftir að hafa fengið fréttirnar um að eldur hafi komið upp í bílnum, enda hefði þetta allt eins getað gerst þegar hún sæti undir stýri. „Ég á fjögur börn. Bílstólarnir, leikföngin, jólagjafirnar, nýju fötin – þetta fór allt. Sparifötin fóru líka í eldinum þannig að þetta urðu sparifatalaus áramót.“

Eldsupptök ókunn

Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri í Kópavogi, segir í samtali við Vísi að eldsupptök séu ókunn.

„Við áttum okkur ekki á hvað það er sem fer úrskeiðis. Það er ómögulegt að segja um það því bíll brann til kaldra kola. Bíllinn hafði verið í viðgerð en eldurinn tengist ekki því sem verið var að gera við bílinn. Þetta er eitthvað tengst eldsneytiskerfi bílsins eða rafkerfi. Við áttum okkur ekki á því. Þetta gerist mjög hratt og sá sem ók bílnum átti fótum sínum fjör að launa,“ segir Gunnar.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×