Enski boltinn

Liverpool fékk á sig tvö víti og tapaði stigum á móti einu af neðstu liðunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jermain Defoe skoraði tvö mörk úr vítum í dag. Hér fagnar hann.
Jermain Defoe skoraði tvö mörk úr vítum í dag. Hér fagnar hann. vísir/getty
Liverpool tapaði stigum á móti einu af neðstu liðum ensku úrvalsdeildarinnar í dag þegar Sunderland og Liverpool gerðu 2-2 jafntefli á Leikvangi ljóssins.

Sunderland endaði þar með fjögurra leikja sigurgöngu Liverpool-liðsins og Chelsea á nú möguleika á því að ná níu stiga forystu á toppi deildarinnar á miðvikudagskvöldið.

Liverpool komst tvisvar yfir í leiknum en Jermain Defoe jafnaði leikinn í tvígang og í bæði skiptin úr vítaspyrnum sem voru réttilega dæmdar á klaufalega leikmenn Liverpool-liðsins.  

Sadio Mané fór frá því að vera hetja Liverpool í að verða skúrkurinn á aðeins tólf mínútum í seinni hálfleik en þetta var hans síðasti leikur með Liverpool fyrir Afríkukeppnina. Mane kom Liverpool í 2-1 en fékk síðan á sig víti.

Liverpool tapaði ekki bara stigum því Daniel Sturridge fór meiddur af velli í seinni hálfleiknum eftir að hafa verið mjög ógnandi allan tímann.

Daniel Sturridge var í fyrsta sinn í byrjunarliði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni síðan í leik á móti Manchester United 17. október.

Sturridge þakkaði fyrir sig með því að koma Liverpool í 1-0 á 19. mínútu. Sturridge skallaði þá boltann yfir Vito Mannone í markinu eftir að Dejan Lovren skaut boltanum í átt að markinu.

Sturridge var búinn að vera nálægt því að skora áður í leiknum en Mannone varði þá frábærlega frá honum í tvígang, fyrst á 8. mínútur og svo aftur á 18. mínútu.

Sunderland var þó ekki lengi að jafna. Ragnar Klavan braut á Didier Ndong og Jermain Defoe skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni á 25. mínútu.

Jermain Defoe fékk algjört dauðafæri til að koma Sunderland yfir tveimur mínútum eftir markið þegar hann slapp einn í gegn en Simon Mignolet bjargaði vel.

Sadio Mané kom Liverpool í 2-1 á 72. mínútu en breyttist svo í skúrk tólf mínútum síðar þegar hann fékk á sig vítaspyrnu fyrir að verja skot úr aukaspyrnu með hendi.

Jermain Defoe fór aftur á vítapunktinn og skoraði af enn meira öryggi en í fyrri hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×