Enski boltinn

Costa sendir Mourinho pillu: „Alltaf hægt að treysta á Conte“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Diego Costa og José Mourinho unnu deildina saman en svo fór að halla undan fæti.
Diego Costa og José Mourinho unnu deildina saman en svo fór að halla undan fæti. vísir/getty
Diego Costa, framherji Chelsea, var ekki langt frá því að yfirgefa Lundúnarliðið í sumar og ganga aftur í raðir Atlético Madríd þar sem hann vakti fyrst heimsathygli.

Costa er búinn að vera frábær á leiktíðinni og skora fimmtán mörk fyrir Chelsea sem er búið að vinna þrettán leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni og trónir á toppi hennar.

Spænski framherjinn var aðeins búinn að skora þrjú mörk fyrir Chelsea áður en José Mourinho var rekinn sem knattspyrnustjóri liðsins í desember 2015 en eftir það fór Costa í gang og skoraði á endanum 16 mörk.

Costa segist ánægðari núna hjá Chelsea en áður og sendir Mourinho þokkalega pillu í viðtali við Sky Sports þar sem hitað er upp fyrir stórleik Tottenham og Chelsea sem fram fer á miðvikudagskvöldið. Um leið hrósar hann Ítalanum Antonio Conte, knattspyrnustjóra félagsins.

„Conte er maður sem leikmennirnir geta treyst á. Líka á erfiðum stundum,“ segir framherjinn. „Hefði ég getað farið í sumar? Já, ég var við það að fara. Það munaði ekki miklu en ég er ánægður hérna.“

„Ég vildi fara og átti möguleika á því að fara aftur til Atético. Það voru ýmsar ástæður fyrir því að ég vildi fara en það var ekki út af Chelsea. Ég finn bara fyrir ást frá stuðningsmönnum og er núna mjög ánægður að vera leikmaður Chelsea.“

Antonio Conte tók við Chelsea-liðinu í sumar þegar hann kom af EM þar sem hann stýrði ítalska landsliðinu í síðasta sinn. Eftir sæmilega byrjun tók Chelsea á mikinn sprett og er nú búið að vinna þrettán leiki í röð.

„Sannleikurinn er sá að stjórinn kann á leikmennina og er alltaf að grínast með okkur sem er gott. Hann er ekki bara stjórinn okkar heldur maður sem hægt er að tala við á erfiðum stundum. Hann er rólegur og maður sér að fólk elskar hann alltaf meira og meira,“ segir Diego Costa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×