Enski boltinn

Wenger: Enskir stjórar fá ekki nógu mörg tækifæri

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger vill sjá fleiri Englendinga.
Arsene Wenger vill sjá fleiri Englendinga. vísir/getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, telur að ekki nógu margir enskir stjórar fái tækifæri til að spreyta sig í ensku úrvalsdeildinni en hann hrósar hinum unga Eddie Howe, stjóra Bournemouth, fyrir að nýta sitt tækifæri til fullnustu.

Howe er aðeins einn af fjórum Englendingum sem stýra liði í ensku úrvalsdeildinni en hann kom Bournemouth upp árið 2015 og er að vinna í því að gera liðið að fastagesti í vinsælustu deild heims. Arsenal og Bournemouth mætast einmitt annað kvöld.

Wenger hefur miklar mætur á Howe en minnist þess að hann var einn af fáum erlendum stjórum í ensku úrvalsdeildinni þegar hann mætti með látum árið 1996.

„Þegar ég kom hingað fengu erlendir stjórar ekki tækifæri og því var ég frekar einmanna til að byrja með. Í dag hefur þetta snúist við því enskir stjórar fá ekki nógu mörg tækifæri,“ segir Wenger í viðtali við Sky Sports.

„Howe er undantekning. Hann er ungur og flottur stjóri sem fékk sitt tækifæri og er að gera Bournemouth að föstu úrvalsdeildarliði. Hann er gott dæmi um að ef ungir enskir stjórar eru tilbúnir að leggja mikið á sig þá er hægt að fá tækifæri í úrvalsdeildinni.“

„Það má ekki gleyma því sem hann gerði með liðið í B-deildinni þar sem það skoraði yfir 100 mörk. Það er ekki bara að Bournemouth hélt sér í deildinni á síðustu leiktíð heldur spilar það svo góðan fótbolta. Þess vegna sér maður framtíðina svo bjarta fyrir Eddie Howe,“ segir Arsene Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×