Enski boltinn

Söguleg stigasöfnun Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Georginio Wijnaldum fagnar marki sínu ásamt Adam Lallana.
Georginio Wijnaldum fagnar marki sínu ásamt Adam Lallana. vísir/getty
Það var ekki boðið upp á neinar áramótabombur í stórleiknum á Anfield í fyrradag. Georginio Wijnaldum kom Liverpool yfir með frábærum skalla á 8. mínútu og þar við sat. City-liðið var flatt og ógnaði sjaldan. Til marks um það snerti Sergio Agüero, aðalframherji liðsins, boltann aldrei inni í vítateig Liverpool í leiknum.

Þetta var fjórði sigur Liverpool í röð en breytingarnar sem Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins, gerði í kjölfar tapsins fyrir Bourne­mouth og jafnteflisins við West Ham United hafa svínvirkað. Simon Mignolet kom í markið í stað Loris Karius og Ragnar Klavan inn í hjarta varnarinnar við hlið Dejans Lovren. Og með þessari blöndu hefur Liverpool haldið hreinu í þremur af síðustu fjórum leikjum sínum.

Þegar keppni í ensku úrvalsdeildinni er hálfnuð er Liverpool í 2. sæti með 43 stig. Þetta er mesti stigafjöldi sem liðið hefur náð í eftir 19 umferðir frá því enska úrvalsdeildin var sett á laggirnar tímabilið 1992-93. Áður hafði Liverpool mest náð í 42 stig tímabilið 2008-09. Það tímabil átti Rauði herinn möguleika á að vinna Englandsmeistaratitilinn allt fram í næstsíðustu umferð. Tímabilið 2013-14, þegar Liverpool kastaði titlinum frá sér, var liðið í 5. sæti með 36 stig eftir 19 umferðir.

Stigasöfnunin hjá Liverpool það sem af er tímabili er í fínasta lagi. Vandamálið er að strákarnir hans Antonios Conte í Chelsea eru á ótrúlegu skriði. Þeir unnu Stoke City 4-2 á gamlársdag en þetta var þrettándi sigur liðsins í ensku úrvalsdeildinni í röð. Chelsea jafnaði þar með 14 ára gamalt met Arsenal yfir flesta sigurleiki í röð.

Sex stig skilja Chelsea og Liverpool að þegar tímabilið er hálfnað. Slík forysta er fljót að fara þótt í augnablikinu sé erfitt að sjá Chelsea tapa mörgum stigum. Lærisveinar Contes eiga reyndar nokkuð erfiða dagskrá fram undan; í næstu fimm leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni mætir það Tottenham, Liverpool og Arsenal. Stuðningsmenn Chelsea og Liverpool eru væntanlega búnir að merkja við 31. janúar á dagatalinu en þá mætast liðin á Anfield.

Sunnudaginn 15. janúar sækir Liverpool Manchester United heim en annars mætir Rauði herinn þremur neðstu liðum deildarinnar – Sunderland, Swansea City og Hull City – í næstu fimm umferðum. Liverpool þarf að klára þessa skyldusigra, klára sín mál, og vera svo tilbúið að grípa gæsina ef Chelsea misstígur sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×