Innlent

Skora á ríkisstjórn Íslands að taka afstöðu gegn landnemabyggðum í Ísrael

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Uppbygging er hafin á byggð rúmlega 500 húsa á umdeildum svæðum.
Uppbygging er hafin á byggð rúmlega 500 húsa á umdeildum svæðum. Vísir/EPA
Ungir jafnaðarmenn fordæma ríkisstjórn Ísrael vegna áforma um stórfellda uppbyggingu landnemabyggða á hernumdum svæðum Palestínu. Þeir skora á ríkisstjórn Íslands að taka afstöðu gegn landnemabyggðunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Ísraelsk yfirvöld samþykktu nú á dögunum uppbyggingu um fimm hundruð húsa, á landnemabyggðum í austurhluta Jerúsalemborgar. Uppbyggingunni hafði áður verið slegið á frest vegna andstöðu fyrrverandi ríkisstjórnar Bandaríkjanna og ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem frekari uppbygging var gagnrýnd.

Sjá einnig: Ísraelar nýta sér valdatöku Trump og hefja uppbyggingu landnemabyggða

Í tilkynningunni vilja Ungir jafnaðarmenn minna ríkisstjórn Íslands á að Ísland hafi viðurkennt sjálfstæði og fullveldi Palestínu árið 2011. Ungir jafnaðarmenn líti á það sem skyldu Íslands að taka einarða afstöðu gegn frekari uppbyggingu landnemabyggða og öllum þeim aðgerðum sem kunna að ógna friði á milli Ísraela og Palestínumanna.

Skorað er á ríkisstjórn Íslands og ráðherra utanríkismála að koma á framfæri mótmælum íslensku þjóðarinnar gegn áformum ríkisstjórnar Ísraels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×