Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Vinstri grænna voru meðal gesta í Víglínunni á Stöð 2 og Vísi í dag. Þar voru þau meðal annars spurð út í skoðun þeirra á því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafnaði boði efnahags og viðskiptanefndar Alþingis um að mæta á fund nefndarinnar til að ræða skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum en Óli Björn er varaformaður nefndarinnar.
Var það rétt ákvörðun að þínu mati hjá Bjarna að mæta ekki?
„Já, já það þjónaði engum tilgangi að fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra hefði mætt á þann fund. Það hefði ekki skilað neinu,“ sagði Óli Björn.

En hvað finnst þér um það að hann hafi ekki skilað þessari skýrslu?
„Ég held að það hafi verið fremur klaufaskapur að gera það. En það er nú ekki í fyrsta skipti sem starfshópar skila skýrslum.“
Ég á við að hún skyldi ekki hafa verið gerð opinber strax strax?
„Ég skil hvað þú átt við, ég er að segja það,“ sagði Óli Björn.
Rósa Björk segir óklókt hjá forsætisráðherra að mæta ekki fyrir þingnefndina.
„Þetta bætist við það að skýrslan, hann ákvað að leyna henni fram yfir kosningar. Sem er líka í besta falli óklókt og þegar verið er að tala um klaufaskap; þetta hefur ekkert með klaufaskap að gera. Þetta var í raun og veru gjörð Bjarna Benediktssonar til að leyna almenning upplýsingum,“ sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Víglínuna í heild sinni má sjá hér að ofan.