Erlent

ISIS-liðar skemmdu fornminjar í Palmyra

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Vígamenn Íslamska ríkisins hafa eyðilagt hluta rómverska leikhússins í borginni Palmyra í Sýrlandi. Gervihnattarmyndir sýna að fornar súlur við inngang leikhússins hafa verið sprengdar í loft upp og miklar skemmdir hafa verið unnar á sviði leikhússins. Fornminjaráðuneyti ríkisstjórnar Bashar al-Assad óskar eftir hjálp alþjóðasamfélagsins til að koma rústunum til bjargar.

Rústirnar eru á minjaskrá UNESCO.

Samkvæmt CNN liggur ekki fyrir hvenær skemmdirnar voru unnar en umræddar gervihnattarmyndir voru teknar þann 10. janúar.

Hér má sjá hvar skemmdirnar voru unnar.Vísir/AFP
Palmyra var mikilvæg borg á „silkiveginum“ svokallaða á tímum Rómarveldisins. Stór vin var í Palmyra og var hún vinsæll áningarstaður verslunarmanna og annarra.

ISIS-liðar skemmdu tölvuert af fornminjum við borgina þegar þeir hertóku hana í maí 2015. Stjórnarher Sýrlands frelsaði svo borgina í mars í fyrra með aðstoð Rússa. Þeir misstu hana hins vegar aftur í desember þegar stjórnarherinn var að einbeita sér að Aleppo í norðurhluta landsins.

Samtökin hafa notað leikhúsið til fjöldaaftaka minnst tvisvar sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×