Enski boltinn

Matraðarbyrjun hjá Arsenal og tap á móti Watford á heimavelli | Sjáðu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Watford vann sinn fyrsta útileik síðan í október þegar liðið sótti þrjú stig á Emirates-leikvanginum í kvöld.

Watford vann þá 2-1 sigur á heimamönnum í Arsenal eftir að hafa skorað tvö mörk á fyrstu þrettán mínútum leiksins.

Watford hefur verið að gefa mikið eftir að undanförnu en þessi sigur í kvöld ætti heldur betur að færa liðinu byr undir báða vængi.

Arsenal var fyrir leikinn búið að vinna fimm heimaleiki í röð í deildinni en liðið mátti alls ekki tapa stigum ætlaði liðið að vera með í titilbaráttunni.

Watford varð þarna fyrsta liðið til að vinna Arsenal í deildinni á Emirates-leikvanginum síðan í ágúst þegar Liverpool vann 4-3 sigur.

Younes Kaboul og Troy Deeney komu Watford í 2-0 á fyrstu þrettán mínútunum og það dugði liðinu til að fá öll stigin. Alex Iwobi minnkaði muninn á 58. mínútum en heimamönnum í Arsenal tókst ekki að jafna og fá eitthvað út úr leiknum.

Heurelho Gomes, markvörður Watford, reyndist sóknarmönnum Arsenal erfiður í þessum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×