Innlent

Maður sleginn í andlitið með flösku

Kjartan Kjartansson skrifar
Árásarmaðurinn var horfinn á braut þegar lögregla kom á staðinn í miðborginni.
Árásarmaðurinn var horfinn á braut þegar lögregla kom á staðinn í miðborginni. Vísir/Eyþór
Árásarmaður sem sló annan mann með flösku í andlitið í miðborg Reykjavíkur í nótt lét sig hverfa af vettvangi áður en lögreglu bar að garði. Fórnarlamb árásarinnar hlaut skurð á höfði.

Í dagbók lögreglunnar á höfuborgarsvæðinu kemur fram að óskað hafi verið eftir aðstoð hennar og sjúkraliðs vegna árásarinnar kl. 5:30 í morgun. Fórnarlambið hafði meðal annars verið lamið í andlitið með flösku og var flutt á slysadeild Landspítalans í Fossvogi til skoðunar og aðhlynningar.

Nokkuð var einnig um ölvunarakstur í borginni í nótt og morgun og þá voru gerðar tilraunir til innbrota í bílum á tveimur stöðum.

Um klukkan átta í morgun var maður handtekinn vegna þjófnaðar úr bifreið í Breiðholti. Hann hafði þá gengið milli bifreiða til þess að kanna hvort þær væru ólæstar í félagi við tvo aðra menn. Maðurinn fór inn í bifreið sem var ólæst og tók þaðan nokkra muni. Var hann handtekinn skammt frá vettvangi og var hann færður á lögreglustöð til skýrslutöku.

Í Árbæ var tilkynnt um að farið hafi verið í leyfisleysi inn í bifreið fyrir utan fjölbýlishús og úr honum tekin einhver verðmæti á sjöunda tímanum í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×