Innlent

Skógarhögg ekki að undirlagi UNESCO

Skógarhögg ekki að undirlagi UNESCO Í umræðu um eyðingu barrtrjáa í þjóðgarðinum á Þingvöllum hefur sú saga verið á kreiki að það sé krafa Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) að trén víki vegna stöðu Þingvalla á heimsminjaskrá. Til dæmis var haft eftir Sigurði K. Oddssyni, þáverandi þjóðgarðsverði, í Fréttablaðinu 13. júlí 2007, að þegar sótt hafi verið um að Þingvellir færu á heimsminjaskrá hafi Sameinuðu þjóðirnar tilgreint að barrtrén skyldu fjarlægð. Það er hins vegar rangt eins og lesa má hér um í bloggfærslu Björns Bjarnasonar, þáverandi formanns Þingvallanefndar, frá því 21. júlí 2007: „Í UNESCO-skráningarvinnunni kom fram, að hinir erlendu sérfræðingar, sem sendir voru á vettvang til að meta Þingvelli í samanburði við hundruð eða þúsundir annarra staða, voru sammála mati Þingvallanefndar og sérfræðinga hennar um fækkun barrtrjáa í þinghelginni. UNESCO setti Þingvallanefnd ekki neina úrslitakosti í þessu efni, en taldi nefndina á réttri braut, þegar lögð væri áhersla á grisjun barrtrjáa. Hjörleifur Guttormsson, sem sat í Þingvallanefnd á níunda áratug síðustu aldar, hefur skýrt frá því, að á þeim tíma, eða árið 1988, hafi nefndin fyrst sent frá sér stefnu, sem miðaði að því að grisja barrtrén.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×