Erlent

Fjórir danskir piltar reyndu að kveikja í afgönskum jafnaldra sínum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. vísir/epa
Fjórir danskir piltar voru handteknir á mánudag grunaðir um að hafa reynt að myrða sextán ára afganskan strák. Drengirnir, sem eru fimmtán og sextán ára, eru sakaðir um að hafa hellt eldsneyti yfir strákinn og lagt eld að með þeim afleiðingum að strákurinn særðist alvarlega.

Árásin átti sér stað í bænum Ry, suður af Skanderborg, síðastliðið mánudagskvöld. Piltarnir voru leiddir fyrir dómara á þriðjudagsmorgun þar sem þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Lögregla hefur lítið viljað tjá sig um málið en segir að árásin sé ekki rannsökuð sem hatursglæpur, að svo stöddu.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja núna erum við líklega að horfa upp á átök milli piltanna fimm, sem allir búa í Ry og stunda þar nám. Það eru engar sannanir sem benda til þess að glæpurinn hafi verið framinn vegna þjóðernis drengsins,“ segir í tilkynningu frá dönsku lögreglunni.

Fram kemur í dönskum fjölmiðlum að drengirnir fjórir hafi hellt eldsneytinu úr brúsa yfir strákinn. Strákurinn hafi hlotið alvarleg brunasár og liggi nú á sjúkrahúsi. Piltarnir fjórir eiga yfir höfði sér ákæru fyrir tilraun til manndráps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×