Innlent

Inflúensan í hámarki um þessar mundir

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Inflúensan er útbreidd í samfélaginu og hefur verið staðfest í öllum landshlutum, segir sóttvarnalæknir.
Inflúensan er útbreidd í samfélaginu og hefur verið staðfest í öllum landshlutum, segir sóttvarnalæknir. vísir/vilhelm
Alls hafa 226 einstaklingar greinst með inflúensu frá því í lok nóvember og er flensan líklega í hámarki um þessar mundir. Inflúensan er útbreidd í samfélaginu og hefur verið staðfest í öllum landshlutum, en gera má ráð fyrir að tilfellum fækki á næstu vikum, segir sóttvarnalæknir.

Inflúensan er algengari á meðal 60 ára og eldri en meðalaldur þeirra sem greinst hafa frá því í nóvember er 63 ár. Þá hafa alls 95 einstaklingar legið á Landspítala frá því í byrjun desember vegna inflúensu, þar af greindist 21 í síðustu viku, að því er segir á vef landlæknisembættisins.

Flestir þeir sem lagst hafa inn eiga það sameiginlegt að vera 70 ára og eldri en meðalaldurinn er tæp 74 ár. Aldraðir eru í mestri hættu vegna alvarlegra veikinda sökum inflúensunnar.

„Inflúensan er útbreidd í samfélaginu, sennilega er hún í hámarki núna og gera má ráð fyrir að tilfellum fækki á næstu vikum. Inflúensa A(H3N2) er sá stofn sem hefur verið í dreifingu, en ekki er útilokað að inflúensa A(H1N1) eða inflúensa B eigi eftir að koma í kjölfarið á næstu vikum,“ segir á vef landlæknis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×