Fótbolti

Heimir: Þetta var einstefna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Davíð Þór Viðarsson var fyrirliði íslenska landsliðsins í nótt.
Davíð Þór Viðarsson var fyrirliði íslenska landsliðsins í nótt. Vísir/AP
Heimir Hallgrímsson segir að vináttulandsleikur Mexíkó og Íslands í Las Vegas í nótt hafi líklega ekki verið skemmtilegur áhorfs.

Mexíkó vann 1-0 sigur með skallamarki Alan Pulido í fyrri hálfleik en leikurinn fór fram í Las Vegas.

Ísland fékk fá færi í leiknum og strákarnir okkar voru heppnir að fá ekki fleiri á sig undir lok leiksins.



„Leikurinn var líklega ekki sá skemmtilegasti fyrir áhorfendur. Þetta var einstefna langstærsta hluta leiksins,“ sagði Heimir á blaðamannafundi eftir leikinn í nótt.

Sex nýliðar fengu sín fyrstu tækifæri með íslenska landsliðinu í nótt en liðið var eingöngu skipað leikmönnum sem spila hér á landi og Norðurlöndunum.

Tapið ekkert stórslys

„Það var ekkert stórslys að tapa þessum leik 1-0. Það er raunar fremur eftirtektarvert að við vorum 90 prósent leiksins í vörn og fengum aðeins eitt mark á okkur,“ sagði Heimir enn fremur.

„Við hljótum því að hafa gert eitthvað rétt þegar kom að varnarleiknum.“

Hann hrósaði engu að síður leikmönnum íslenska liðsins fyrir frammistöðuna.

„Við vissum fyrirfram að við yrðum ekki mikið með boltann í leiknum og að við myndum ekki skapa mörg færi. En mínir menn stóðu sig vel í leiknum.“

Ísland er nú að undirbúa sig fyrir leik gegn Kósóvó í undankeppni HM 2018 en hann fer fram í Albaníu í næsta mánuði. Þá mætir Ísland aftur til leiks með sitt sterkasta lið.

Ísland lék gegn Síle í Kína í síðasta mánuði og tapaði þá, 1-0, rétt eins og í nótt.

„Það eru mikil einstaklingsgæði í liðinu og margir góðir leikmenn. Leikskipulagið gengur því mikið út á að fara einn á móti einum. Í Evrópu er meira lagt upp úr liðsframmistöðunni,“ sagði Heimir á blaðamannafundinum.

„Leikmenn geta því lært mikið af því að spila við jafn sterka leikmenn og þeir mættu í þessum leik. Mexíkó er ávallt hátt skrifað í knattspyrnuheiminum og hefur engin breyting verið í9 þeim efnum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×