Fótbolti

Heimsmeistari hættir aðeins 33 ára

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Philip Lahm í leik með Bayern.
Philip Lahm í leik með Bayern. Vísir/EPA
Philip Lahm, fyrrum fyrirliði þýska landsliðsins og lykilmaður hjá Bayern München, ætlar að leggja skóna á hilluna í vor þó svo að hann sé aðeins 33 ára.

Lahm tilkynnti þetta eftir að Bayern vann Wolfsburg í 16-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í gærkvöldi. Það var 501. leikur Lahm fyrir Bayern.

„Ég get haldið áfram sem leiðtogi liðsins og gefið mitt besta á hverjum degi, á hverri æfingu, til loka tímabilsins. En ekki lengur,“ sagði Lahm sem ákvað eftir HM 2014 að hætta að spila með þýska landsliðinu. Þjóðverjar urðu þá heimsmeistarar.

Lahm spilaði sinn fyrsta leik fyrir Bayern árið 2002 og hefur síðan orðið sjö sinnum þýskur meistari með liðinu og auk þess unnið Meistaradeild Evrópu einu sinni. Hann varð þar að auki sex sinnum þýskur bikarmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×