Erlent

Fundu efni til að aflífa dýr í gæludýrafóðri

Hundurinn sem drapst var af tegundinni Pug.
Hundurinn sem drapst var af tegundinni Pug. vísir/afp
Innkalla hefur þurft gæludýrafóður frá bandarískum framleiðanda í stórum stíl eftir að efni sem notað er til þess að aflífa dýr fannst í fóðrinu. Um er að ræða efnið pentobarbital sem vanalega er notað til þess að lóga hundum, köttum og hestum.

Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins en þar segir að fóðrið, sem er framleitt af Evenger‘s Dog and Cat Food, sé selt í sextán ríkjum í Bandaríkjunum.

Hundur af gerðinni Pug drapst nýlega og talið er að það sé vegna fóðursins. Þrír aðrir hundar af sama heimili hófu að hegða sér undarlega eftir að hafa étið matinn.

„Ég gaf þeim eina matarskál og innan fimmtán mínútna byrjuðu þeir að láta eins og þeir væru drukknir,“ segir eigandi hundanna fjögurra, og bætir við að hundurinn sem drapst hafi étið mest.

Fyrirtækið segir í yfirlýsingu að birgi þeirra hafi brugðist, og þar af leiðandi hafi fyrirtækið sjálft brugðist viðskiptavinum sínum. Það hafi greitt allan dýralæknakostnað fyrir hundanna og styrkt hundaathvarf.

Umrætt lyf hefur einnig verið í lyfjakokteil til þess að aflífa fanga í að minnsta kosti fjórtán ríkjum Bandaríkjanna, að því er segir á vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×