Fótbolti

Barcelona tapar aldrei þegar Suarez skorar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Suarez skoraði og sá rautt í kvöld.
Suarez skoraði og sá rautt í kvöld. vísir/getty
Barcelona komst í kvöld í úrslit í spænsku bikarkeppninni eftir magnaðan leik gegn Atletico sem endaði með 1-1 jafntefli.

Barca vann fyrri leik liðanna, 1-2, og rimmuna því 3-2 samanlagt. Þetta er fjórða árið í röð sem Barcelona kemst í bikarúrslit.

Luis Suarez skoraði fyrir Barcelona á markamínútunni, þeirri 43. Kevin Gameiro jafnaði sjö mínútum fyrir leikslok og í hönd fór æsilegur kafli.

Suarez var þarna að skora í fimmta leiknum í röð. Það veit á afar gott fyrir Barcelona þegar Suarez skorar. Liðið hefur nefnilega ekki tapað í 69 leikjum í röð þegar Suarez skorar. Það er ótrúleg tölfræði.

Atletico fékk heldur betur tækifæri til þess að koma sér inn í leikinn er Sergi Roberto fékk að líta rauða spjaldið á 57. mínútu. Hann á afmæli í dag og afmælisdagurinn stóð ekki alveg undir væntingum þar.

Leikar jöfnuðust tólf mínútum síðar er Yannick Carrasco hjá Atletico var einnig sendur í bað.

Rauðu spjalda veislunni var ekki lokið því Suarez fékk að líta rauða spjaldið undir lokin og verður því í banni í úrslitaleiknum. Þetta var hans fyrsta rauða spjald í búningi Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×