Erlent

Nýjar friðarviðræður hefjast í Kólumbíu

atli ísleifsson skrifar
Ekki er að fullu ljóst hvað margir eru enn í haldi liðsmanna ELN.
Ekki er að fullu ljóst hvað margir eru enn í haldi liðsmanna ELN. Vísir/AFP
Formlegar friðarviðræður kólumbískra stjórnvalda og uppreisnarhópsins ELN hefjast á morgun. Stjórnvöld vilja byggja á þvi friðarsamkomulagi sem náðist við uppreisnarhópinn Farc og koma á „algerum friði“ í landinu eftir 53 ára ófrið.

Talið er að Fresisherinn (ELN) verði erfiðari viðsemjandi fyrir Kólumbíustjórn en Farc og er talið ólíklegt að samkomulag náist áður en Juan Manuel Santos lætur af störfum sem forseti landsins á næsta ári.

Santos, sem tók við við friðarverðlaunum Nóbels á síðasta ári, segist þó bjartsýnn á árangur, en leynilegar viðræður hafa staðið milli aðilanna í þrjú ár.

Liðsmenn ELN slepptu í síðustu viku stjórnmálamanninum Odin Sanchez sem hafði verið haldið í gíslingu frá apríl 2016. Hann hafði þá boðist til að koma í stað bróður síns, sem hafði ferið í haldi ELN-liða í um þrjá mánuði, og var ekki heill heilsu.

Í síðustu viku var hermanni einnig sleppt en honum hafði verið í haldi ELN í nokkrar vikur. Ekki er að fullu ljóst hvað margir eru enn í haldi liðsmanna ELN.

Alls hafa um 260 þúsund manns fallið og 60 þúsund er saknað frá því að ófriðurinn í landinu blossaði upp.

Talið er að liðsmenn ELN telji um 1.500 sem flestir hafast við í norður- og vesturhluta landsins.

Formleg athöfn fer fram í dag og hefjast formlegar viðræður á morgun.


Tengdar fréttir

Hollande fundaði með leiðtoga FARC

Á fundi þeirra lofaði Frakklandsforseti aðstoð við að eyða jarðsprengjum í landinu og aðstoða við leit að horfnu fólki eftir hina blóðugu borgarastyrjöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×