Innlent

„Ef fólk vill halda áfram að vinna þá sé ég ekki rökin fyrir því að banna því það“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Ég hef ekki enn heyrt í manneskju sem er eitthvað mjög mótfallin því að fólk fái að vinna ef það vill það. Mér finnst þetta bara eitt af þessum málum sem við ættum öll að geta verið sammála um að þetta eru einhverjar rosalega úreltar reglur og það ætti bara að vera hægt að laga þetta.“

Þetta segir Sölvi Tryggvason dagskrárgerðarmaður í samtali við Reykjavík síðdegis en hann skrifaði pistil á Facebook í gær þess efnis að móðir hans, sem hefur unnið fyrir hið opinbera í lengri tíma, þurfi að láta af störfum sökum aldurs, líkt og lög kveða á um, en hún verður sjötug eftir tvær vikur. Hann segir móður sína gjarnan vilja halda áfram að vinna enda sé hún með mikla reynslu og eldmóð.

Pottur víða brotinn

„Maður hefur svo sem vitað það í langan tíma að það er pottur brotinn þarna og svo er það bara eins og vill vera með okkur flest að þegar hlutirnir standa manni nærri þá tekur maður kannski enn frekar eftir þeim. [...] Það er eins og það sé rosalega margt í málefnum fólk sem er komið á þennan 67-70 ára aldur sem er bara í ólagi. Mér finnst skrítið það það skuli ekki einhverjir þingmenn taka sig til og setja púður í þennan málaflokk og gera eitthvað í þessu,“ segir hann.

Sölvi segir lagabreytingar geta gagnast öllum, hvort sem litið sé til lýðheilsusjónarmiða eða sparnaðar. Fyrst og fremst sé þetta hins vegar réttlætismál.

„Það eru svo mörg rök fyrir þessu. Ekki bara það að það sé ósanngjarnt að manneskja sem hefur alla starfsævina byggt upp reynslu, og hefur enn gaman að vinnunni og hefur enn heilsu til og vinnustaðurinn nýtur krafta manneskjunnar. Í fyrsta lagi er þetta svo ósanngjarnt, í öðru lagi er þetta tap á verðmætum og í þriðja lagi má færa góð rök fyrir því að þetta kosti heilbrigðiskerfið mikið því það er örugglega fullt af fólki sem er kannski ekkert sérstaklega félagslynt og missir svolítið fæturna þegar það hættir að vinna,“ segir hann.

Allt annað að vera sjötugur í dag en áður

„Það að vera sjötugur í dag er ekki það sama og að vera sjötugur fyrir 30 eða 40 árum síðan. Jafnvel þó þessar reglur hefðu líka verið fáránlegar þá, þá eru þær enn fáránlegri í dag. Ég ætla að vona að ég verði bara í fullu fjöri þegar ég verð sjötugur og fá að gera það sem ég vil gera þá.“

Pistil Sölva Tryggvasonar má sjá hér fyrir neðan og hlusta má á viðtalið við hann í spilaranum hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×