Erlent

Þúsundir barna misnotuð af kaþólskum prestum í Ástralíu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Rannsóknin bar kennsl á nær 1900 gerendur en enn eru 500 óþekktir.
Rannsóknin bar kennsl á nær 1900 gerendur en enn eru 500 óþekktir. Vísir/Epa
Rannsókn á kerfisbundnu kynferðisofbeldi í Ástralíu leiddi í ljós að sjö prósent kaþólskra presta í landinu misnotuðu börn á árunum 1950-2010.

Rannsókn nefndar á viðbrögðum stofnanna við kynferðislegu ofbeldi hefur staðið frá árinu 2013 og hefur einnig til rannsóknar aðrar samfélagsstofnanir en kirkjuna, til að mynda skóla og íþróttasamtök.

Á árunum 1980 til 2015 voru 4.444 börn misnotuð í yfir 1000 kaþólskum stofnunum í Ástralíu. Meðal aldur þolenda var tíu og hálft ár hjá stelpum og ellefu og hálft ár hjá strákum. Að meðaltali liðu 33 ár áður en ofbeldið var tilkynnt og meirihluti þolenda voru karlkyns.

Rannsóknin bar kennsl á nær 1900 gerendur en enn eru 500 óþekktir. 32 prósent gerenda voru munkar, 30 prósent voru prestar, 29 prósent voru starfsmenn og 5 prósent voru nunnur.

Francis Sullivan er einn þeirra sem undirbýr viðbrögð kirkjunnar við niðurstöðum rannsóknarinnar.

„Þessi tölfræði sláandi, sorgleg og óverjanleg,“ sagði Sullivan.

„Þessi gögn eru áfellisdómur yfir þeim prestum og trúarleiðtogum sem misnotuðu þessi börn. Hún endurspeglar einnig þá leiðtoga sem brugðust með því að takast ekki á við ofbeldismenn, með því að láta þá ekki sæta refsingu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×