Erlent

Skar eyrun af eiginkonu sinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Afgönsk kona segir eiginmann sinn hafa bundið sig og skorið af sér eyrun. Zarina, sem er 23 ára gömul, var flutt á sjúkrahúsog er nú í stöðugu ástandi. Hún segist ekki vita af hverju eiginmaður hennar réðst á hana, en hún segir samband þeirra ekki gott. Zarina giftist manninum þegar hún var þrettán ára gömul.

Eiginmaðurinn er nú á flótta í norðurhluta Afganistan, samkvæmt BBC.

Samkvæmt Zarinu vakti eiginmaður hennar hana um miðja nótt og réðst á hana upp úr þurru. Hann hafði verið að kvarta yfir heimsóknum hennar til foreldra sinna og sakað hana um að vera að hitta aðra karlmenn.

Zarina vill ekki vega gift manninum lengur og fer fram á að hann verði handtekinn og ákærður.

Undanfarin ár hafa komið upp þó nokkur atvik þar sem alvarlegt heimilisofbeldi og almennt ofbeldi gegn konum í Afganistan hefur vakið mikla athygli.

Þekktasta atvikiðo er líklegast þegar ung kona sem hét Farkhunda var barin og brennd til dauða af hópi fólks í Kabúl í mars 2015. Hún hafði verið sökuð um að brenna eintak af kóraninum. Það atvik leiddi til mótmæla gegn ofbeldi gegn konum víða í Afganistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×