Enski boltinn

Gylfi Þór hefur komið að helmingi marka Swansea í deildinni á tímabilinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er allt í öllu hjá Swansea í ensku úrvalsdeildinni eins og hann hefur verið undanfarin misseri en hann bjargaði liðinu nánast einn síns liðs frá falli á síðustu leiktíð með níu mörkum og tveimur stoðsendingum eftir áramót.

Gylfi Þór er sjóðheitur þessa dagana en í gærkvöldi tryggði hann liðinu sigur á Southampton, 2-1, með fallegu marki eftir skyndisókn í seinni hálfleik en íslenski landsliðsmaðurinn lagði upp fyrra mark liðsins fyrir Alfie Mawson.

Þetta er annar leikurinn í röð sem Gylfi skorar sigurmark en það gerði hann einnig í síðustu umferð þegar Swansea fór á Anfield og vann Liverpool, 3-2. Þökk sé sigurmörkum Gylfa Þórs er Swansea komið upp úr fallsæti og lítur út fyrir að Hafnfirðingurinn ætli að bjarga velska liðinu á ný.

Gylfi Þór er nú búinn að skora sjö mörk og leggja upp önnur sjö á tímabilinu og því koma með beinum hætti að fjórtán mörkum. Hann er því búinn að koma að helming marka Swansea í ensku úrvalsdeildinni því liðið er búið að skora 28 mörk.

Það er bara verst að Gylfi getur ekki spilað allar stöður og þá helst í vörninni því velska liðið er búið að leka inn 52 mörkum sem er það lang mesta í deildinni. Næsta lið er Hull sem er á botninum með fimm stigum minna en Swansea en það er búið að fá á sig 47 mörk.

Gylfi er í 5.-6. sæti listans yfir stoðsendingahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar ásamt Adam Lallana sem er búinn að gefa jafnmargar stoðsendingar fyrir Liverpool. Fyrir ofan þá eru Alexis Sánchez, Arsenal, Matthew Phillips, WBA, og Christian Eriksen, Tottenham, allir með átta stoðsendingar.

Kevin De Bruyne, leikmaður Manchester City, trónir á toppi stoðsendingalistans með níu stykki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×