Erlent

Fillon ósáttur við fjölmiðla

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
François Fillon, forsetaframbjóðandi franskra Repúblikana, segir fjölmiðla í herferð gegn sér og sakar þá um að reyna að eyðileggja framboð sitt.

Í síðustu viku greindi vikublaðið Le Canard Enchaine frá því að kona Fillons, Penelope, hefði þegið hundruð þúsunda evra fyrir uppdiktuð störf. Fleiri miðlar hafa greint frá því í kjölfarið að upphæðirnar gætu verið mun hærri.

„Aldrei í sögu fimmta lýðveldisins hefur verið farið í slíka herferð atvinnurógburðar gegn frambjóðanda,“ sagði Fillon í gær. Hann sagði konu sína ekki hafa neitt að fela.

Le Monde greindi frá því á þriðjudag að Penelope Fillon hefði þegið 830.000 evrur fyrir að aðstoða eiginmann sinn á meðan hann sat á þingi. Er sú upphæð 330.000 evrum hærri en upphæðin sem Le Canard Enchainé greindi frá. Börn þeirra fengu einnig greitt fyrir aðstoðarstörf.

Heimilt er að ráða fjölskyldumeðlimi sem aðstoðarmenn en Le Canard Enchainé segir að ekki líti út fyrir að Penelope Fillon hafi í raun unnið fyrir eiginmann sinn.

Lögregla gerði áhlaup á skrifstofur þingsins í gær. Greindu franskir fjölmiðlar frá því að hún væri að leita að skjölum sem sýndu fram á að Penelope Fillon hefði í raun og veru verið aðstoðarmaður François Fillon.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×