Innlent

Hollensk kona dæmd í árs fangelsi fyrir fíkniefnasmygl

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Í dómnum segir að ljóst sé að konan hafi verið burðardýr, en hún var samvinnufús við lögreglu. Hún játaði brot sitt skýlaust.
Í dómnum segir að ljóst sé að konan hafi verið burðardýr, en hún var samvinnufús við lögreglu. Hún játaði brot sitt skýlaust. vísir/hari
Hollensk kona var í Héraðsdómi Reykjaness í morgun dæmd í tólf mánaða fangelsi fyrir að hafa smyglað tæplega 373 grömmum af kókaíni hingað til lands í desember í fyrra. Henni var jafnframt gert að greiða rúmlega 1,3 milljónir króna í sakarkostnað.

Konan kom hingað til lands með flugi frá Dusseldorf í Þýskalandi 22. desember 2016. Hún er sögð hafa flutt efnin í líkama sínum í átta pakkningum, en fíkniefnin voru með 81 prósent styrkleika, að því er fram kemur í dómi héraðsdóms.

Þá segir í dómnum að ljóst sé að konan hafi verið svokallað burðardýr og verið samvinnufús við rannsókn málsins, en hún játaði brot sitt skýlaust. Dómurinn taldi, að þessu virtu og með hliðsjón af magni fíkniefnanna, að refsing þyki hæfilega ákveðin fangelsi í tólf mánuði.

Konan sætti gæsluvarðhaldi frá 23. desember fram að uppkvaðningu dómsins, og kemur það til frádráttar refsingunni. Henni var einnig gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns og aksturskostnað hans, rúmlega 800 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×