Enski boltinn

Ruud Gullit ánægður með Gylfa og félaga í Swansea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og Ruud Gullit.
Gylfi Þór Sigurðsson og Ruud Gullit. Vísir/Samsett/Getty
Hollenska knattspyrnugoðsögnin Ruud Gullit og gamla enska varnartröllið Martin Keown fóru yfir leik Swansea City í Match of the Day 3 þættinum á BBC en Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hafa fengið tólf stig í síðustu sex leikjum sínum og unnu Englandsmeistara Leicester City sannfærandi um helgina.

„Þeir eru betur skipulagðir og allir í liðinu vita núna hvert er þeirra hlutverk. Svo auðvitað kemur fyrsti sigurinn með meira sjálfstraust inn í hópinn. Betri skipulagning hefur samt breytt mestu fyrir þá,“ sagði Ruud Gullit.

„Það hefur verið ótrúlegum viðsnúningur hjá þeim. Þeir eru nú með sinn þriðja knattspyrnustjóra á tímabilinu og er langbestur af þeim öllum. Hann er búinn að vera þjálfari í tíu ár og hann hefur sannað það að hann er efni í flottan stjóra með fjórum sigrum í sex leikjum,“ sagði Martin Keown og knattspyrnustjórinn Paul Clement fær mikið hrós frá honum.

„Þeim leið mjög vel á móti Leicester og það reyndi ekki mikið á liðið. Ég var hrifinn af kaupum liðsins í janúar. Ég er hrifinn af (Martin) Olsson á fleygiferð niður vinstri vænginn, að sjá (Gylfa) Sigurðsson koma inn á miðjuna og það má sjá á þessum boltum fram frá (Tom) Carroll að hann hefur unnið með Pochettino(knattspyrnustjóra Tottenham). Þeir hafa styrkt liði og litu mjög vel út,“ sagði Martin Keown.

Ruud Gullit og Martin Keown ræddu síðan líka möguleika Swansea City á að bjarga sér frá falli og fara yfir það af hverju Paul Clement er svona góður stjóri fyrir liðið.

Það er hægt að sjá alla umræðuna með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×