Erlent

Skattanefnd mun ekki falast eftir skattskýrslum Trumps

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Trump vill ekki opna bókhaldið.
Trump vill ekki opna bókhaldið. vísir/epa
Skattaeftirlitsnefnd sem starfar á vegum fulltrúadeildar bandaríska þingsins kemur ekki til með að falast eftir skattskýrslum Donalds Trumps. Þetta kemur fram á vef fréttastofu Reuters.

Þingmenn úr röðum Demókrata hafa þrýst á nefndina að taka skattskýrslur  Trumps til skoðunar til þess að hægt sé að átta sig betur á meintum viðskiptatengslum forsetans við erlend ríki, þar á meðal Rússland.

„Ef þingið byrjar að nota völd sín til þess að hnýsast eftir skattskýrslum forsetans, hvað kemur þá í veg fyrir að venjulegir bandarískir borgarar fái sömu meðferð?,“ sagði Kevin Brady, formaður nefndar fulltrúadeildar þingsins sem meðal annars sér um mál er viðkoma skattinnheimtu og útgjöldum úr ríkissjóði. 

„Persónuvernd og réttur til einkalífs eru ennþá mikilvæg réttindi í landinu og nefndin hyggst ekki grafa undan þeim,“ sagði hann enn fremur.

Trump hefur  til þessa verið ragur við að opinbera bókhald sitt en hefð er fyrir því að forsetaframbjóðendur geri slíkt.

Hillary Clinton, mótframbjóðandi Trumps í forsetakosningunum sem fram fóru í nóvember á síðasta ári, skaut í kosningabaráttunni föstum skotum að Trump fyrir að leyna gögnunum fyrir almenningi.

Trump afsakaði sig með því að benda á að hann sjálfur auk fyrirtækja sinna væru í skoðun hjá skattayfirvöldum og hann gæti því ómögulega birt skýrslur sínar. Hins vegar eru ekki neinar reglur um að ekki megi opinbera slík gögn þótt þau séu í skoðun.

Demókratar eru margir tortryggnir vegna tregðu hans til þess að opinbera bókhald sitt og telja að þeir gætu komið upp um meinta hagsmunaárekstra forsetans vegna alþjóðlegra viðskipta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×