Innlent

Ráðherra telur bankasölu geta skilað rúmlega 400 milljörðum

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson, telur að sala á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum geti skilað ríkissjóði rúmlega 400 milljörðum króna í tekjur. Fyrst verði eignarhlutur í Arion banka seldur og það gæti orðið síðar á þessu ári.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur birt til umsagnar drög að eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki sem ríkissjóður á eignarhlut í. Ríkið á eignarhluti í fjórum fjármálafyrirtækjum en í stefnunni er að finna áform ríkisins um eignarhald þeirra á næstu árum.

Dreifð eignaraðild

Ríkissjóður á í dag rúmlega 98 prósenta eignarhlut í Landsbankanum. Stefnt er að því að ríkissjóður eigi 34-40% eignarhlut til langframa með það að markmiði að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfi landsins. Ríkissjóður á í dag 100 prósenta eignarhlut í Íslandsbanka og 13 prósent í Arion banka. Stefnt er að því að selja báða þessa eignarhluti að fullu. Þá verður eignarhlutur ríkisins í Sparisjóði Austurlands seldur.

Með hvaða hætti verða þessi fyrirtæki seld?

„Við höfum lagt mikla áherslu á að það verði með mjög gagnsæjum hætti. Við höfum mikinn áhuga á að þetta verði í sem dreifðastri eignaraðild. Það verði gert með góðri samstöðu pólitísku flokkanna,” segir Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Ekki lokið á þessu kjörtímabili

Í eigendastefnunni kemur fram að þessir eignarhlutir verði seldir þegar hagfelld og æskileg skilyrði verða fyrir hendi.

En hvenær á fjármálaráðherra von á að svo verði?

„Við sjáum það að nú eru eigendur Arion banka, meirihluta eigendur þar, ætla að fara í útboð núna um páskanna. Við munum fylgjast með hvernig þeim gengur,” segir Benedikt.

Hann segir að fjármálafyrirtækin verði ekki seld öll á sama tíma. Fyrst verði eignarhlutur ríkisins í Arion banka seldur og það gæti orðið á þessu ári. Ljóst sé að salan á fyrirtækjunum muni taka mörg ár og verði væntanlega ekki lokið á þessu kjörtímabili.

Gæti skilað rúmlega 400 milljörðum

Benedikt telur að salan á öllum fjármálafyrirtækjunum gæti skilað ríkissjóði tekjum sem nemi um 15 til 20 prósent af vergri landsframleiðslu

„Sem að eru þá kannski 300 til rúmlega 400 hundruð milljarðar króna.”

Hvað verður gert við þá fjármuni?

„Þeim verður varið í að greiða niður skuldir,” segir Benedikt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×