Erlent

Fréttaljósmynd ársins er af morðingja rússneska sendiherrans í Tyrklandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mynd Ozbilici af Altintas.
Mynd Ozbilici af Altintas. vísir/epa
Buhan Ozbilici, ljósmyndari AP-fréttastofunnar, á fréttaljósmynd ársins 2017 fyrir mynd sína af Mevlut Mert Altintas, morðingja Andrei Karlov, sendiherra Rússlands í Tyrklandi  en Altintas skaut Karlov til bana á ljómyndasýningu í Ankara þann 19. desember í fyrra.

Mynd Ozbilici af Altintas eftir að hann hafði skotið sendiherrann fór eins og eldur í sinu um internetið enda er um gríðarlega áhrifamikla mynd að ræða þar sem morðinginn stendur klæddur í jakkaföt og öskrandi með byssuna í annarri hendi og hina höndina upp í loft. Við hliðina á honum liggur svo sendiherrann í gólfinu.

 

Myndin er hluti af ljósmyndaröð Ozbilici sem heitir „Morð í Tyrklandi“ en ljósmyndaröðin vann líka verðlaun sem fréttaljósmyndaröð ársins. Myndirnar voru allar teknar augnablikum áður og eftir en Altintas skaut Karlov.

Í viðtali á vef AP um tildrög myndarinnar segir Ozbilici að „faglega eðlið hafi kikkað inn.“

„Það var mjög heitt þarna inni, eins og verið væri að hella yfir mig sjóðandi vatni en síðan var mjög kalt.

 

Aðstæðurnar voru mjög hættulegar en á sama tíma skildi ég að þetta var stórfrétt, að þetta væri sögulegur viðburður og mjög mikilvægt augnablik.“

Ozbilici er þaulreyndur fréttaljósmyndari enda hefur hann starfað við fagið í yfir þrjátíu ár.

 

„Ég ákvað strax að sinna starfi mínu því ég hefði getað særst, kannski dáið, en ég þurfti að minnsta kosti að halda í heiðri góða blaðamennsku.“


Tengdar fréttir

Lögregla yfirheyrir fjölskyldu morðingjans

Talsmenn tyrkneskra yfirvalda segja allt benda til þess að morðingi rússneska sendiherrans hafi haft tengsl við hreyfingu klerksins Fetullah Gülen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×