Erlent

Fjöldi heimila hafa fuðrað upp í kjarreldum í Ástralíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst 50 þúsund hektarar hafa brunnið í Nýju Suður-Wales.
Minnst 50 þúsund hektarar hafa brunnið í Nýju Suður-Wales. Vísir/AFP
Umfangsmiklir kjarreldar herja nú á Nýja Suður-Wales hérað Ástralíu. Um 50 þúsundir hektara og minnst þrjátíu heimili hafa brunnið. Umfang skemmda hefur þó ekki verið kannað að fullu. En dregið hefur úr eldunum í dag. Þorpið Uarbry varð hvað verst úti, en af tólf byggingum eru níu sagðar hafa brunnið.

Slökkvilið á svæðinu segir ótrúlegt að enginn hafi dáið í eldunum sem hafi geisað um helgina.

Samkvæmt BBC hafa rúmlega 2.500 slökkviliðsmenn barist gegn eldunum. Þar af hafa einungis tveir slasast. Einn skarst illa á hendi og annar hlaut brunasár á höndum, handleggjum og á andliti.

Hitamet var slegið í héraðinu á laugardaginn þegar meðalhitinn var 44 gráður, en búist er við því að kólna muni í dag.

BBC segir einnig að enn hafi 80 kjarreldar ekki verið slökktir og þar af hafi tök ekki náðst á tuttugu þeirra. Forsætisráðherra NSW segir það versta nú vera yfirstaðið, en íbúar séu ekki sloppnir enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×