Erlent

Skipað að yfirgefa heimili sín eftir að uppistöðulón yfirfylltist

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vatn flæddi um yfirfallsrásir lónsins sem reyndust skemmdar þegar á reyndi.
Vatn flæddi um yfirfallsrásir lónsins sem reyndust skemmdar þegar á reyndi. Vísir/EPA
180 þúsund íbúum í norðurhluta Kaliforníu-ríkis Bandaríkjanna hefur verið skipað að yfirgefa heimili eftir að uppistöðulón Oroville-stíflunnar fylltist af vatni í kjölfar mikillar úrkomu undanfarna daga. BBC greinir frá.

Vatn tók að flæða um neyðaryfirfallsrás stíflunnar í fyrsta sinn í 50 ára sögu stíflunnar. Vegna skemmda var óttast um það að neyðaryfirfallið myndi gefa sig og vatn flæða yfir nærliggjandi byggð.

Þá flæddi vatn einnig yfir meginyfirfall uppistöðulónsins og óttuðust yfirvöld um að yfirfallið myndi gefa sig, en það reyndist einnig vera illa farið.

Töluvert dró þó út vatnshæð lónsins eftir að hætti að rigna um helgina og hefur rennsli um yfirföllin dregist mjög saman. Talið er að mesta hættan sé úr sögunni.

Oroville-stíflan er hæsta stíflan í Bandaríkjunum, um 230 metra há, og við hana er eitt stærsta uppistöðulón Kaliforníu, Oroville-vatn. Yfirvöld leggja áherslu á að stíflan sjálf sé traust og engin hætta sé á að hún gefi sig.

A video posted by Zeb pawledge (@zebs_pics) on




Fleiri fréttir

Sjá meira


×