Erlent

Átök milli franskra mótmælenda og lögreglu

atli ísleifsson skrifar
Mótmælendur hentu Mólotov-kokteilum í átt að lögreglu.
Mótmælendur hentu Mólotov-kokteilum í átt að lögreglu. Vísir/afp
Mótmælendur í úthverfum Parísarborgar köstuðu ýmsu lauslegu í átt að lögreglu og kveiktu í bílum og ruslagámum í kvöld.

Mikil reiði kraumar víða í úthverfum frönsku höfuðborgarinnar vegna máls þar sem lögreglumaður er grunaður um að hafa beitt annan mann kynferðisofbeldi eftir að sá var handtekinn fyrr í mánuðinum í Aulnay-sous-Bois.

Lögreglumaður er grunaður um að hafa beitt hinum 22 ára manni kynferðislegu ofbeldi eftir að hann var handtekinn og þrír starfsbræður liggja undir grun um að hafa beitt hann óhóflegu líkamlegu ofbeldi. Maðurinn var handtekinn fimmtudaginn 2. febrúar.

Í frétt SVT segir að mikil mótmæli hafi blossað upp í úthverfunum þann 7. febrúar og þau héldu áfram í kvöld.

Talsmaður Parísarlögreglunnar segir að um tvö þúsund manns hafi safnast saman og mótmælt friðsamlega í Bobigny, nærri Aulnay-sous-Bois, til að lýsa yfir stuðningi við hinn handtekna, sem í frönskum fjölmiðlum gengur undir nafninu Theo. Þegar leið á mótmælin fór hins vegar hópur manna að kasta Mólotov-kokteilum og lauslegum hlutum í átt að lögreglu.

Kveikt var í fjölda bíla og þurfti lögregla að hafa hraðar hendur til að bjarga litlu barni sem fast var inni í einum bílnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×