Erlent

Fer fram á að ákvæði um sameinað Írland verði í Brexit samningnum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Enda Kenny, forsætisráðherra Írlands, ásamt Jean Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB.
Enda Kenny, forsætisráðherra Írlands, ásamt Jean Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Vísir/EPA
Forsætisráðherra Írlands, Enda Kenny, hefur lýst yfir þeirri skoðun sinni á fundi með forsvarsmönnum Evrópusambandsins í Brussel, að setja eigi inn ákvæði í Brexit samninginn, sem gerir ráð fyrir þeim möguleika að Norður-Írland og Írland sameinist. Guardian greinir frá.

Forsætisráðherrann vill þar með tryggja að fari það einhverntímann svo, að Norður-Írland muni sameinast Írlandi, verði það auðveldara fyrir Norður-Írland að verða hluti af Evrópusambandinu á nýjan leik eftir sameiningu. Tók hann dæmi um sameiningu Austur-Þýskalands og Vestur-Þýskalands, þegar austurhluta landsins var auðveldað að ganga inn í Evrópusambandið um leið og löndin tvö sameinuðust. Þá segir Kenny einnig að það sé mikilvægt að stjórnskipulag Norður-Írlands sé haft með í ákvæðum samningsins.

„Með öðrum orðum að í framtíðinni, hvenær svo sem það verður, ef að verður af sameiningu, að þá geti norðurhlutinn gengið inn í Evrópusambandið vandkvæðalaust. Við viljum að þetta orðalag verði haft með í samningnum.“

Á sama tíma sagði Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra tveggja, að hann teldi mikilvægt að ekki yrði horfið til þess tíma þegar rammgerð landamæri voru á milli ríkjanna tveggja á eynni. Hann lagði áherslu á það að landamærin yrðu eins opin og mögulegt er.

Kenny tók fram að ríkisstjórnir Bretlands og Írlands væru báðar sammála um það að hafa ætti landamærin á eyjunni eins opin og mögulegt er. Hann sagðist ekki telja að svo yrði ekki en taka þyrfti með allar mögulegar breytingar í utanríkismálum í framtíðinni með í reikninginn. Ákvæði um sameiginlegt Írland væri skref í þá átt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×