Innlent

Hefur fullan hug á að ráða fram úr húsnæðismálum LHÍ

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Málefni Listaháskóla Íslands hafa borið á góma að undanförnu ekki síst fyrir þær sakir að óviðunandi aðbúnaður húsakynna skólans hafa verið í kastljósi.

Nemendur skólans hafa meðal annars vakið athygli á myglusveppi í húsakynnum skólans á samfélagsmiðlum að undanförnu undir myllumerkinu #LHÍmygla.

Sjá: „Vilja varanlega lausn á húsnæðisvanda Listaháskólans“

Þingmenn Pírata og Vinstri Grænna hafa þá lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela eigi menntamálaráðherra að finna lausn á húsnæðisvanda Listaháskólans.

„Miklar áhyggjur eru af myglusvepp í húsakynnum hans, en skólinn leigir bæði frá ríkinu og einkaaðilum og ver miklu fjármagni í aðstöðu sem hentar stofnuninni ekki. Tónlist er til dæmis kennd í húsi með lélegri kyndingu sem skortir hljóðeinangrun, leiklist er kennd án viðunandi leikrýmis, myndlistarkennslan er í gömlu sláturhúsi og svo mætti lengi telja,“ segir í þingsályktunartillögunni.

Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra, átti fund með stjórnendum skólans í morgun, til að freista þess að finna lausn á húsnæðisvanda skólans.

„Þetta er tvíþætt verkefni,“ segir Kristján Þór. „Annars vegar þessi bráðavandi sem skólinn býr við í dag og er verið að vinna lausn á með stuðningi ráðuneytisins og hinsvegar er það þá lengri tíma stefnumörkun í málefnum skólans,“ segir hann.

„Skólastjórnendur eru að vinna úr stöðu dagsins, með stuðningi ráðuneytisins eins og ég sagði. Síðan erum við að horfa til þess með hvaða hætti við getum leyst úr framtíðarhúsnæðismálum skólans og ég hef fullan hug á því að koma húsnæðismálum skólans í einhvern skikk til lengri tíma litið og við erum bara að taka fyrstu skrefin núna með hvaða hætti það verði best gert,“ segir Kristján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×