Erlent

Leita strokufanga í Liverpool

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Englandi.
Lögregluþjónar að störfum í Englandi. Vísir/Getty
Umfangsmikil leit að strokufanga stendur nú yfir í og við Liverpool í Englandi. Verið var að flytja Shaun Walmsley frá sjúkrahúsi aftur til fangelsisins í Liverpool í gær þegar tveir menn, vopnaðir byssu og hnífi, réðust að fangavörðunum og hjálpuðu Walmsley að strjúka.

Hann er dæmdur morðingi og lögreglan hefur beðið fólk sem verður hans vart að nálgast hann ekki og hringja á lögreglu. Walmsley var ásamt tveimur öðrum dæmdur í 30 ára fangelsi árið 2014 fyrir grimmilegt morð á fíkniefnasala sem tilheyrði öðru glæpagengi.

Samkvæmt Sky News voru tveir fangaverðir með Walmsley og voru þeir að færa hann um borð í bíl fyrir utan sjúkrahúsið sem er í einungis tíu mínútna fjarlægð frá fangelsinu.

Mennirnir sem hjálpuðu Walmsley hótuðu fangavörðunum og ógnuðu þeim með vopnum sínum svo þeir slepptu honum lausum. Síðan flúðu þeir á bíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×